Fræðsla

Menning fyrir alla er dagskrá fyrir skólahópa sem miðar að því að fá alla nemendur í ákveðnum bekkjardeildum í skipulagða heimsókn í Menningarhúsin. Að öllu jöfnu miðar dagskráin að því að skólahópar heimsæki tvö hús í dagskrá sem tengist þvert á viðfangsefni Menningarhúsanna. Þó er undantekning á þessari reglu þegar um dagskrá í Salnum er að ræða. Einnig er tekið á móti skólahópum í sérsniðna dagskrá eftir óskum kennara en í slíkum tilvikum er æskilegt að hafa samband beint við Bókasafn Kópavogs, Gerðarsafn, Héraðsskjalasafn Kópavogs eða Náttúrufræðistofu Kópavogs.

1. - 3. bekkur

Tónlist í Salnum

Á haustin er boðið til veislu í Salnum fyrir 1. - 3. bekk þar sem ýmist tónleikar, ópera eða sýning sem byggist á tónlist er í boði. Árið 2017 var það baritónsöngvarinn Jón Svavar Jósefsson og Guðrún Dalía Salómonsdóttir píanóleikari sem fluttu dagskrána Ég sá sauð í því skyni að kynna íslenskar söngperlur fyrir nemendum á mjög lifandi hátt.