Jólabækurnar í Menningu á miðvikudögum

27. október 2020
Sex nýjar og spennandi jólabækur verða til umfjöllunar í Menningu á miðvikudögum næstu vikurnar þar sem Maríanna Clara Lúthersdóttir, bókmenntafræðingur og leikkona ræðir við höfunda nýútkominna bóka og þeir lesa úr verkum sínum á Bókasafni Kópavogs.    
Viðburðirnir verða sendir út á Facebook-síðu Menningarhúsanna og aðgengilegir eftir að útsendingu lýkur.    
Lilja Sigurðardóttir glæpasagnadrottning ríður á vaðið í Menningu á miðvikudögum 28. október klukkan 12:15 þar sem hún les úr hörkuspennandi glæpasögu sinni, Blóðrauðum sjó og ræðir verkið og glæpasagnaformið við Maríönnu Clöru.
    
    
Um Blóðrauðan sjó eftir Lilju Sigurðardóttur
    
Þegar athafnamaðurinn Flosi kemur heim í kvöldmat er allt á rúi og stúi en Guðrún kona hans horfin. Á eldhúsborðinu bíður bréf um að henni hafi verið rænt og ef Flosi greiði ekki himinhátt lausnargjald verði hún drepin. Hann má ekki leita til lögreglunnar en eftir krókaleiðum kemst hann í samband við Áróru, sem vinnur við að finna falið fé, og Daníel rannsóknarlögreglumann.
Án þess að nokkuð spyrjist út reyna þau í sameiningu að átta sig á hvað hefur gerst. Getur verið að ránið á Guðrúnu tengist alþjóðlegri glæpastarfsemi og peningaþvætti – eða er skýringin ef til vill mun nærtækari?
    
Höfundaspjall í Menningu á miðvikudögum
    
28.10.2020 - Lilja Sigurðardóttir: Blóðrauður sjór
04.11.2020 - Ófeigur Sigurðarson: Váboðar
11.11.2020 - Sigríður Hagalín Björnsdóttir: Eldarnir: Ástin og aðrar hamfarir
18.11.2020 - Vilborg Davíðsdóttir: Undir Yggdrasil
25.11.2020 - Jón Kalman Stefánsson: Fjarvera þín er myrkur
02.12.2020 - Auður Ava Ólafsdóttir: Dýralíf