Jólabækur fyrir börn og unglinga til umfjöllunar

06. nóvember 2020

Nýjar og spennandi barna- og unglingabækur verða til umfjöllunar í Fjölskyldustundum á laugardögum næstu vikurnar.

Guðrún Lára Pétursdóttir, bókmenntafræðingur ræðir við höfunda nýútkominna bóka og þeir lesa úr verkum sínum á Bókasafni Kópavogs.

Viðburðirnir verða sendir út á Facebook-síðum Menningarhúsanna í Kópavogi og Bókasafns Kópavogs og verða einnig aðgengilegir eftir að útsendingu lýkur.

Vertu þú! Litríkar sögur af fjölbreytileikanum eftir þær Ingileif Friðriksdóttur og Maríu Rut Kristinsdóttur verður til umfjöllunar í Fjölskyldustund laugardaginn 7. nóvember kl. 13.

Þær Ingileif og María Rut lesa úr bók sinni og ræða við Guðrúnu Láru um fjölbreytileikann í allri sinni dýrð.

Hvað er það sem gerir mig að mér? Hvað er það sem gerir þig að þér?

Öll erum við einstök á okkar hátt. Við eigum öll rétt á að vera nákvæmlega eins og við erum.

Það skiptir ekki máli hverju við klæðumst, hverjum við verðum skotin í, hvaða kyni við upplifum okkur í, hvaðan við erum eða hverju við höfum áhuga á. Við megum öll vera eins og okkur langar til.

Vertu þú! segir litríkar sögur af fjölbreytileikanum og hvetur til fordómaleysis og víðsýni. Höfundar bókarinnar eru Ingileif Friðriksdóttir og María Rut Kristinsdóttir sem halda úti fræðsluvettvanginum Hinseginleikinn. Bókina prýða fallegar myndir Öldu Lilju Hrannardóttur.
Höfundaspjall í Fjölskyldustundum á laugardögum:

  • 31.10. kl. 13: Ofurhetjan eftir Hjalta Halldórsson
  • 07.11. kl. 13: Vertu þú! Litríkar sögur af fjölbreytileikanum eftir Ingileif Friðriksdóttur og Maríu Rut Kristinsdóttur
  • 14.11. kl. 13: Töfralandið eftir Bergrúnu Írisi
  • 21.11. kl. 13: Hingað og ekki lengra! eftir Þórdísi Gísladóttur og Hildi Knútsdóttur
  • 28.11. kl. 13: Bölvun múmíunnar II eftir Ármann Jakobsson
  • 05.12. kl. 13: Grísafjörður eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur