Skúlptúrinn í samtímanum | Samtal við listamenn

23. nóvember 2020

Á sýningunni Skúlptúr / skúlptúr, sem opnuð var í Gerðarsafni á dögunum, sýna myndlistarmennirnir Magnús Helgason og Ólöf Helga Helgadóttir verk sín en um tvær einkasýningar er að ræða.

Sýning Magnúsar Helgasonar, sem ber titilinn Shit hvað allt er gott, einkennist af gáskafullri uppfinningasemi. „Myndlist sem hittir mann beint í hjartað heillar mig mest, þegar áhorfandinn fær vatn í munninn eða örari hjartslátt þegar hann sér verkið,“ segir Magnús. „Leikgleði og undraverð segulstál eru í fararbroddi í sýningunni. Ég er að vinna með náttúruna og kannski má segja að þetta sé pínu eins og vísindasýning. Litirnir eru sterkir og lítið um fínlegheit, ég er að höfða beint til frumskynjunar fólks.

Sýning Ólafar Helgu ber titilinn Hrist ryk á steini en þar má meðal annars sjá rauðar gardínur af æskuheimili Ólafar Helgu sem umbreyst hafa í risavaxinn skúlptúr.

„Ég er búin að geyma þær í mörg ár og alltaf langað að gera eitthvað við þær en það hefur aldrei orðið að neinu fyrr en nú. Þær eru í æpandi rauðum lit og ég minnist þess hvernig birtan inni í húsinu varð rauðleit þegar sólin skein,“ segir Ólöf en verk hennar eiga sér stundum persónulegan undirtón, eru ögn dularfull. Í verkum mínum ýti ég hversdagslegu efni út fyrir sitt hefðbundna hlutverk og varpa þannig óvæntu ljósi á kunnugleg sjónarhorn.“

Húmor og dægurmenning einkenna líka verk Ólafar og við sjáum vísanir í listasöguna í mínímalískum en glettnum skúlptúrum hennar þar sem fundin efni og hversdagsleiki fá nýja vídd í sýningarsalnum.

Þriðjudaginn 1. desember kl. 12:15 mun Brynja Sveinsdóttir ræða Ólöfu Helgu um sýningu hennar, Hrist ryk á steini Spjallið verður sent út á Facebook- og Youtubesíðum Gerðarsafns og Menningarhúsanna í Kópavogi.

24. nóvember kl. 12:15 verður sýning Magnúsar Helgasonar í brennidepli þegar Hallgerður Hallgrímsdóttir ræðir við listamanninn um sýningu hans Shit hvað allt er gott.

Sýningaröðin „Skúlptúr / skúlptur“ hverfist um þróun þrívíðrar myndlistar í samtímanum í heiðursskyni við Gerði Helgadóttur og framlag hennar til íslenskrar höggmyndalistar. Nánar hér