Skýjaborgin Kópavogur

10. mars 2021
Gestur skoðar verk Eirúnar Sigurðardóttur

Laugardaginn 6. mars var sýningin Skýjaborg opnuð í Gerðarsafni.  Samkvæmt sýningarstjórum verksins, Brynju Sveinsdóttur og Klöru Þórhallsdóttur, var opnunin mjög farsæl og verulega ánægjulegt að sjá afrakstur fjögurra ára undirbúningsvinnu.

Stórhuga bæjarfélag 

Skýjaborg er sýning á verkum fjögurra samtímalistamanna; Berglindi Jónu Hlynsdóttur, Bjarka Bragasyni, Eirúnu Sigurðardóttur og Unnari Erni Auðarsyni. Öll sýningarverkin spretta úr sameiginlegum grunni: Kópavogi. Saga bæjarins einkennist af stórhuga áætlunum, þar sem háhýsi risu hratt og bærinn breyttist snarlega úr sveit í borg. Verk listamannanna vitna í háleitar hugmyndir bæjarbúa á stórum jafnt sem smáum skala. Allt frá einstaklingum sem byggja sér heimili úr niðurníddum kofum og görðum til metnaðarfullra samtaka íbúa sem vilja láta til sín taka í málefnum bæjarfélagsins. Hvernig áætlanir einstaklinga breyta náttúru í manngert landslag og hvað verður þegar stjórn mannsins á umhverfinu sleppir.

Muniði eftir Hamraborgarrásinni?

Á sýningunni má meðal annars finna innsetningu eftir Berglindi Jónu sem vakti verulega mikla athygli. Innsetningin er eins konar endurgerð sjónvarpsstöðvarinnar Hamraborgarrásin sem var til starfa um miðbik 10. áratugarins.Verkin Heimahagar og Einingarband, eftir Eirúnu Sigurðardóttur eru einlæg verk sem byggjast á fyrrverandi æskuheimili hennar, Engihjalla 3 og uppvaxtarárin hennar í þessu húsi. Fyrir utan Gerðarsafn stendur síðan uppi verk eftir Unnar Örn Auðarson. Vindbelgur sem hefur verið strípaður öllum litum sínum og þar af leiðandi tilgangi hans þar sem vindbelgir eru notaðir til vindmælingar á flugvöllum. Inn í safninu má síðan finna önnur verk eftir listamanninn en þau byggjast öll á hvernig maðurinn reynir að mæla og kortleggja eiginleika lands á við jarðkosti, landnytjar og auðlindir. Listamaðurinn Bjarki Bragason hefur í um tólf ár unnið í rannsókn á húsagarði afa síns og ömmu. Verk hans á sýningunni er hluti af þessari veigamiklu rannsókn og vísar í þessar umbreytingar úr ræktunargarða í kaupstað.

Leiðsögn um Skýjaborg á Menningu á miðvikudögum 

Nú þegar Covid-19 faraldurinn virðist vera í rénun þá er aftur hægt að mæta á viðburðaröðina Menning á miðvikudögum sem er í boði alla miðvikudaga kl. 12:15. Miðvikudaginn 10. mars þá gefst fólki færi á að fá enn dýpri upplifun á sýningunni Skýjaborg en þá munu listamennirnir Eirún Sigurðardóttir og Unnar Örn Auðarson, ásamt sýningarstjórunum Brynju Sveinsdóttur og Klöru Þórhallsdóttur, leiða gesti um sýninguna klukkan 12:15 miðvikudaginn 10. mars.  

Fyrir áhugasama fer skráning fram í gegnum www.gerdarsafn.is.