Jelena Ciric í Salnum

09. mars 2021

Tónlistarkonan Jelena Ciric kemur við sögu á tveimur viðburðum sem fram fara í Salnum í Kópavogi nú í mars.  Jelena er söngvari, píanóleikari, lagahöfundur og kórstjóri sem hefur auðgað íslenskt menningarlíf frá því hún settist hér að 2016 á margvíslegan hátt, með fjölþættu tónleikahaldi, tónlistarkennslu og kórstjórn. Nú rétt fyrir síðustu jól sendi hún einnig frá sér smáskífuna Shelters One sem hefur fengið frábærar viðtökur.

Áhrif úr ólíkum áttum

Jelena er fædd í Serbíu, alin upp í Kanada, nam í Kanada og á Spáni og starfaði í Mexíkó áður en hún settist að á Íslandi en þessar fjölþjóðlegu rætur blæða inn í hennar einstaka hljóðheim. Þar gætir annars áhrifa úr ólíkum áttum; þjóðlagamúsík, popp og jass og á tónlistarveitunni Spotify má nálgast skemmtilegan lagalista sem Jelena hefur sett saman og hefur að geyma lög sem hafa haft innblásandi áhrif á lögin að baki skífunni Shelters One. Listinn góði geymir lög eftir tónlistarfólk á borð við Reginu Spektor, Aldous Harding, Joni Mitchell, Neil Young og fleiri.

Seiðandi tónar

Á hádegistónleikum í Salnum í Kópavog, 17. mars næstkomandi mun Jelena flytja lög af þessari plötu í bland við eldra efni og innskot úr ólíkum áttum en sérstakir gestir á tónleikunum verða þau Karl Pestka á fiðlu og Margrét Arnardóttir, harmonikkuleikari sem koma einnig fram á áðurnefndri plötu. Tónleikarnir fara fram í viðburðaröðinni Menning á miðvikudögum sem hefur hafið göngu sína á nýjan leik eftir nokkurt hlé vegna samkomutakmarkana. Ókeypis er á tónleikana og öll velkomin en skráning er nauðsynleg á vefsíðu Salarins.

Tónlist og hreyfing

Í Salnum laugardaginn 13.mars klukkan 13 mun Jelena svo bjóða upp á tónlistarsmiðju fyrir börn og foreldra undir yfirskriftinni Tónlist á hreyfingu. Tónlist, ekki síst taktviss og fjörug, knýr okkur iðulega til að hreyfa líkamann en getur líka hjálpað til við að skilja hana og njóta hennar. Í þessari smiðju mun Jelena Ciric leiða krakka (og foreldra) í að tjá takt, laglínur og form í tónlist með öllum líkamanum við undirspil skemmtilegrar tónlistar úr ólíkum menningarheimum. Smiðjan fer fram innan viðburðaraðarinnar Fjölskyldustundir á laugardögum, ókeypis er fyrir þátttakendur er skráning er nauðsynleg.