Langur fimmtudagur 30. september

27. september 2021
Ljósmynd: Leifur Wilberg Orrason.

Fjölbreyttar listsmiðjur og viðburðir í tilefni af löngum fimmtudegi 30.september nk.

Fimmtudaginn 30. september verður boðið upp á langan fimmtudag í Menningarhúsunum í Kópavogi. Í Salnum kl. 17 verður boðið upp á síðdegisjazz og opið verður til 20 í Gerðarsafni, Náttúrufræðistofu og Bókasafni Kópavogs þar sem hægt verður að njóta fjölbreyttra listsmiðja og viðburða. Ókeypis er í Gerðarsafn frá 17 – 20 og á alla viðburði dagsins. 

Síðdegisjazz í Salnum kl. 17

Í Salnum má gera ráð fyrir miklu fjöri þegar Guitar Islancio stígur á svið og flytja íslensk þjóðlög eftir sínu nefi í bland við þekkt innslög úr ólíkum áttum.

Tríóið Guitar Islancio var stofnað haustið 1998 af gítarleikurunum Birni Thoroddsen og Gunnari Þórðarsyni og Jóni Rafnssyni kontrabassaleikara og hefur síðan þá, haldið óteljandi fjölda tónleika og komið fram á tónlistarhátíðum hérlendis og erlendis. Tríóið hefur gefið út fimm geisladiska sem hafa allir fengið mjög góðar viðtökur og voru á sínum tíma tilnefndir til íslensku tónlistarverðlaunanna sem jazzdiskar ársins. Á þeim tíma sem Guitar Islancio hefur starfað hafa fjölmargir þekktir tónlistarmenn leikið með tríóinu, m.a. Didier Lockwood, Sylvain Luc, Jørgen Svare, Kristian Jørgensen, Ulf Wakenius, Kazumi Watanabe, Philiph Catherine, Larry Coryell og Richard Gillis. Tríóið í dag skipa þeir Björn Thoroddsen, Jón Rafnsson og Þórður Árnason.

Örplastsspjall og taupokasmiðja

Á Bókasafni Kópavogs verður hægt að taka með sér gardínu, sængurver eða gamalt og úr sér gengið fataplagg og læra að sníða og sauma úr efninu margnota taupoka - og þar með leggja einnota pokum fyrir fullt og allt. Smiðjan stendur yfir frá 17 - 19.

Í Náttúrufræðistofu Kópavogs stendur yfir grunnsýningin Heimkynni sem er uppspretta endalauss fróðleiks. Fróðir líffræðingar stofunnar verða svo á staðnum og bjóða upp á vísindaspjall í tilefni plastlauss september frá 18 - 20 en þar verður til dæmis hægt sjá með berum augum allt það plastmagn sem eitt stykki flíspeysa hefur að geyma.   

Leyndardómar hamskerans 

Í Gerðarsafni verður boðið upp á spjall hamskerans Brynju Davíðsdóttur klukkan 17 í tengslum við afar áhugaverða yfirlitssýningu á 20 ára ferli þeirra Bryndísar Snæbjörnsdóttur og Mark Wilson sem nú stendur yfir í Gerðarsafni en sýningin nefnis Óræð lönd: Samtöl í sameiginlegum víddum.
 
Brynja Davíðsdóttir er margverðlaunaður hamskeri, menntuð í Skotlandi og Englandi auk þess að vera með meistarapróf í náttúru- og umhverfisfræðum. Hún nálgast fagið sem náttúruverndarsinni og hefur nær einvörðungu stoppað upp dýr sem finnast dauð eða þarf að aflífa auk þess sem hún notar upprunalegar aðferðir að mestu, náttúruleg efni sem valda sem minnstum skaða á  náttúrunni. Brynja veitir í spjallinu innsýn í ferli og aðferðir við uppstoppun dýra en á sýningunni í Gerðarsafni má m.a. sjá fugla sem Brynja hefur stoppað upp fyrir Náttúrufræðistofu Kópavogs. 

Listsmiðja fyrir fullorðna  

Frá 18 – 20 verður svo boðið upp á listsmiðju fyrir fullorðna með Guðlaugu Miu Eyþórsdóttur myndlistarkonu í Gerðarsafni þar sem þátttakendum gefst kostur á að kanna umhverfi sitt með aðferðum myndlistarinnar. 
 
Guðlaug Mía Eyþórsdóttir (f. 1988) útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2012 og lauk svo mastersnámi frá Koninklijke Academie í Gent, Belgíu árið 2018. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði innanlands og erlendis. Í myndlist sinni skoðar Guðlaug Mía tákn, hluti og rými hversdagsins, bæði nærumhverfi okkar og almenningsrými. Með því að umbreyta stærðum, efnum og formi kunnuglegra hluta kannar hún hvernig huglægar tengingar áhorfandans finna sér sínar eigin merkingar.