Áskriftarsala hafin á Tíbrá tónleikaröðina 2018 – 19

20. ágúst 2018

Ef keyptir eru þrennir tónleikar eða fleiri í Tíbrá tónleikaröðinni fæst 20% afsláttur af miðaverði.

Tíbrá tónleikaröðin er einstaklega fjölbreytt og skemmtileg í vetur. Röðin telur tíu tónleika sem spanna breytt svið tónlistarinnar með ljóðatónlist, jazz-samtali, sönglagaveislu, dægurlögum, ljóðaleik og ljóðavölsum, fiðlutónum, kólumbískum tónum, rússnesk- slavneskum píanótríóum og svo mætti áfram telja.  

Dægurlög, jazz, strengjasveit, sönglagaveisla og ljóðatónar í haust

Fyrstu tónleikar vetrarins verða 20. september þegar Helena Eyjólfsdóttir flytur uppáhaldslögin sín úr dægurlaga- og jazzdeildinni við undirleik strengjasveitar. Tónleikarnir verða rólegir og rómantískir með sögum og minningum.

Sunnudaginn 30. september mun strengjasveitin Íslenskir strengir undir stjórn Ólafar Sigursveinsdóttur hreyfa við áheyrendum með fjársjóði tónverka eftir Leu Freire í útsetningu Sigrúnar Kristbjargar Jónsdóttur, Högna Egils, Svetlönu Veschaginu, Mamiko Dís Ragnarsdóttur og Benjamin Britten. Munu þeir Joseph Ognibene og Þorsteinn Freyr Sigurðsson koma fram með sveitinni í verki Brittens.

Miðvikudaginn 17. október býður Tíbrá tónleikaröðin til sönglagaveislu með mörgum af fegurstu lögum, aríum og dúettum Jóns Ásgeirssonar í tilefni þess að hann fagnar níðræðisafmælis á þessu ári. Yfirskrift tónleikanna er Hvíslar mér hlynur og eru flytjendur þau Auður Gunnarsdóttir, Gunnar Guðbjörnsson og Snorri Sigfús Birgisson.

Jazzinn mun ráða ríkjum 1. nóvember þegar tvær leiðandi jazzkonur, önnur frá Þýskalandi og hin frá Íslandi, setjast við tvo flygla og hefja samtal. Þær Julia Hülsmann og Sunna Gunnlaugsdóttir flytja á tónleikunum eigin tónsmíðar og vega salt milli melódíu, stemningar og hins óvænta.

Fimmtudaginn 22. nóvember gera Andri Björn Róbertsson bass-barítónn og Edwige Herchenroder píanóleikari ástina og dauðann að viðfangsefni sínu með flutningi verka eftir Schubert, Brahms, Schumann, Wolf, Loewe, Grieg, Árna Thorsteinsson, Vaughan Williams og Ivor Gurney.

Klassík, ljóðatónar, harpa, kúmbía og píanótríó á nýju ári

Nýju tónleikaári verður fagnað miðvikudaginn 9. Janúar með fiðluleikaranum Rannveigu Mörtu Sarc og píanóleikaranum Jane Ade Sutarjo þegar þær flytja fjölbreytta dagskrá með eftirlætisverkum sínum eftir Beethoven, Schöenberg, Chausson og Schumann.

Spænskur ljóðaleikur eftir Schumann og Ástarljóðavalsar eftir Brahms verða fluttir á tónleikum 3. febrúar en þessir sönglagaflokkar fá sjaldan að heyrast í heild sinni á Íslandi. Flytjendur eru Fjölnir Ólafsson, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, Hrafnhildur Árnadóttir, Hrönn Þráinsdóttir, Matthildur Anna Gísladóttir og Þorsteinn Freyr Sigurðsson.

Mismunandi möguleikar hörpunnar verða kannaðar á tónleikum 3. mars þegar hörpuleikararnir Elísabet Waage og Katie Buckley flytja barrokk eftir Gluck, rómantík eftir hörpuleikara Viktoríu drottningar, 20. aldar tónlist og íslenska nýsmíði eftir Kolbein Bjarnason.

Sunnudaginn 17. mars kveður við annan tón þegar Los Mambolitos flytja Kólumbíska tónlist í kúmbíustíl. Mambólingarnir fá liðsauka í þeim Hauki Gröndal og Matthíasi Hemstock til að gera tónlistinni góð skil. Los Mambolitos skipa þau Alexandra Kjeld, Kristofer Rodrigues Svönuson og Kristbjörg Jónsdóttir.

Tríó Nordica lýkur vetrinum 14. apríl með flutningi þriggja stórbrotinna píanótríóa eftir Rachmaninoff, Dvorak (Dumky) og Tanejev um leið og það fagnar 25 ára afmæli sínu.

Það ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi í vetur og við hlökkum til að sjá ykkur í Salnum.