Ljóðstafur Jóns úr Vör

Ljóðahátíð í Kópavogsbæ er árleg en bærinn heldur hátíðina og ljóðasamkeppnina til þess að fagna ljóðlistinni og hvetja bæði börn og fullorðna til þess að virkja sköpunarkraftinn í rituðu máli.

Ljóðstafur Jóns úr Vör

Efnt hefur verið til ljóðasamkeppninnar um Ljóðstaf Jóns úr Vör frá árinu 2002 og eru úrslit keppninnar tilkynnt á eða í kringum fæðingardag skáldsins. Handhafi Ljóðstafsins fær farandgrip til varðveislu í eitt ár, verðlaunagrip til eignar og 300.000 króna peningaverðlaun. 200.000 kr. eru í verðlaun fyrir annað sætið og 100.000 fyrir það þriðja.

Jón úr Vör

Jón úr Vör fæddist á Vatneyri við Patreksfjörð 21. janúar 1917 en starfaði lengst af í Kópavogi þar sem hann var hvatamaður að stofnun bókasafnsins og síðar fyrsti bæjarbókavörður bæjarfélagsins. Jón starfaði að menningarmálum með ýmsum hætti, var til dæmis bæði bóksali og ritstjóri, en fyrst og fremst var hann brautryðjandi í íslenskri ljóðagerð. Fjölmargar ljóðabækur hans lifa með þjóðinni og ber þá helst að nefna óð hans til æskustöðvanna, ljóðabálkinn Þorpið. Jón úr Vör lést 4. mars árið 2000.

Eftirtalin skáld hafa hlotið Ljóðstafinn

Björk Þorgrímsdóttir

Ljóðstafur Jóns úr Vör var afhentur í 18. sinn við hátíðlega athöfn í Salnum á afmælisdegi skáldsins þann 21. janúar.

Handhafi Ljóðstafsins árið 2020 er Björk Þorgrímsdóttir.

Í öðru sæti var Freyja Þórsdóttir fyrir ljóðið Skilningur og þriðja sætið hlaut Elísabet Kristín Jökulsdóttir fyrir ljóðið Að elska Vestfirðing.

Sérstaka viðurkenningu hlutu auk þess ljóðskáldin Björk Þorgrímsdóttir, Draumey Aradóttir, Haukur Þorgeirsson og Tómas Ævar Ólafsson.

Alls bárust 232 ljóð í keppnina og dómnefnd skipuðu Bjarni Bjarnason formaður, Ásta Fanney Sigurðardóttir og Magnús Sigurðsson.

Hlutskörpust í grunnskólakeppninni var Ingimar Örn Hammer Haraldsson í 7. Bekk Álfhólsskóla fyrir ljóðið Svarthol. Í öðru sæti var Arnór Snær Hauksson í 5. Bekk Salaskóla fyrir ljóðið Grimma tréð og í þriðja sæti Steinunn María Gunnarsdóttor og Ragnheiður Jónasdóttir í 7. bekk Kársnesskóla fyrir ljóðið Draumaland.

Þá hlutu sjö nemendur sérstaka viðurkenningu en  þau eru: Benedikt Einarsson í 10. bekk Vatnsendaskóla, Helgi Geirsson í 7. bekk Álfhólsskóla, Bára Margrét Guðjónsdóttir í 5. bekk Salaskóla, Kristín Elka Svansdóttir í 5. bekk Hörðuvallaskóla, Hrannar Ben Ólafsson í 5. bekk Hörðuvallaskóla og Ingunn Jóna Valtýsdóttir í 10. bekk Lindaskóla.

Alls bárust 153 ljóð frá grunnskólabörnum.

Við athöfnina fluttu Ágúst Ólafsson baritón og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari lög við ljóð Jóns úr Vör.


Rökstuðningur dómnefndar um ljóðið Augasteinn eftir Björk Þorgrímsdóttur handhafa Ljóðstafs Jóns úr Vör 2020:

" Í ljóðinu Augasteinn setur skáldið fram draumkenndar myndir um tengingu tveggja einstaklinga. Þeir ræða hugsanleg örlög og lífsleiðir samkvæmt lófalestri án nokkurra orða, sem gefur til kynna annars konar skilning og tengingu þar sem snerting eða ósögð orð leika aðalhlutverkið. Myndir eins og augasteinar sem sökkva og tré sem vaxa undan nóttinni vekja upp spurningar og forvitni sem togar lesandann áfram. En þessari forvitni er ekki endilega svalað með svörum heldur öðrum myndum sem skilja lesandann eftir í lausu lofti. Það fæst engin medalía fyrir tilraunastarfsemi er áleitin fullyrðing sem í næsta orði er grafið undan með allt að því gróteskri lýsingu á orðu sem er nælt undir viðbein.  Sjálft dansar ljóðið á mörkum hins skiljanlega og hins óskiljanlega, á mörkum tilrauna og hefðar, og gefur til kynna að þegar fetaðar eru ótroðnar slóðir er mikilvægt að búast ekki við viðurkenningu frá öðrum heldur veita sér hana sjálf/ur fyrir að fylgja hjartanu inn í óvissuna.
Skáldinu tekst með einstökum hætti að flétta saman sterkt en órætt andrúmsloft sem vekur lesandann til umhugsunar. Ljóðið nær með þessu móti að ramma inn sinn sérstaka heim, sem þó aðeins er hægt að ýja að með verkfærum ljóðlistarinnar. "

Bjarni Bjarnason, Ásta Fanney Sigurðardóttir, Magnús Sigurðsson. 


Ljóðstafur Jóns úr Vör 2020
Björk Þorgrímsdóttir
Augasteinn

undan nóttinni vaxa trén

við vorum sammála um það

 

hvort var það ég eða þú sem komst aftur?

var ég heilög og húðin sjúklega geislandi

kjarni sítrusávaxta

 

við ræddum lófana í hljóði

góm við góm

meðan augasteinarnir sukku

sáttlausir í myrkrinu

 

það fæst engin medalía fyrir tilraunastarfsemi

 

þú með þína klofnu tungu

og ég sem næli orðunni

rétt undir viðbeinið

 

Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs 2020
Ingimar Örn Hammer Haraldsson
Svarthol

Svarthol eru svört,

og draga að sér ljós,

en ekki nógu sterk,

til þess að draga að sér,

mína sál.

Ljóðstafur Jóns úr Vör 2020
Freyja Þórsdóttir
Skilningur

Freyja.JPG

Ljóðstafur Jóns úr Vör 2020
Elísabet Jökulsdóttir
Að elska Vestfirðing

Að elska vestfirðing er að elska hafið í augum hans, norðanáttina sem stendur útúr honum þegar hann heldur einræðurnar um ágæti sitt, hrukkurnar á enni hans sem eru einsog skorningarnar á Gleiðarhjalla og benda til þess að ástin hafi hrukkað enni hans þegar hann reyndi að verjast henni, að elska vestfirðing er að trúa á gugguna hvort sem hún var seld eða ekki seld, að elska vestfirðing er að elska bg og ingibjörgu, rækjuna, snjóskaflana, siggu ragnars, gamla bakaríið, allar gömlu ljósmyndirnar, gúttó, villa valla, víking þriðja, hver sé skyldur hverjum, hver bjó hvar, hver er fluttur suður, að elska vestfirðing er að lofsyngja fíflalæti og vitleysisgang, þegar hann kemur í heimsóknar bankar hann ekki en beygir sig niður við dyrnar og galar innum dyralúguna þótt hann sé að verða sextugur, að elska vestfirðing er deyja pínulítið þegar hann byrjar að einangra sig, ekkert flug, engar samgöngur, síminn lokaður og vestfirðingurinn liggur í þunglyndi og rís ekki upp aftur fyrren í lok janúar, þetta er ekkert sem sálfræðingar ráða við, þetta er myrkrið og sólin í sál hans sem hafa sett mark sitt á hann einsog hrukkurnar fjórar á enninu og tákna jafnmargar eiginkonur sem hann skilur ekkert í að hafa yfirgefið því auðvitað yfirgáfu þær ekki hann svona stórkostlegan og að elska vestfirðing er að hlusta á norðanáttina hvína dag eftir dag þegar hann lýsir sjálfum sér og sálarlífi sínu, öllum þessum tvöhundruð togurum sem hann hefur verið á, öllum sem fóru í hafið og öllum sem björguðust, allt myrkrið sem drukkið var og reið honum næstum að fullu og hann vaknaði upp í meðferð og þar voru engin fjöll og ekkert haf þangað til hann hitti annan vestfirðing með Gleiðarhjalla í andlitinu og myrkrið í hverri taug að sligast undan örlögunum og aðeins vitleysisgangurinn gat bjargað þeim einsog sólargangurinn í þessum bæ sem kúrir við ysta haf og þegar ég sakna hans sakna ég ekki hans heldur sakna ég vestfirðings sem ber mig á höndum sér, snýr hlutunum á hvolf, skilur æsinginn, taumleysið, skáldskapinn og hlustar sallarólegur einsog hann hlustar á norðanáttina fjórtánda daginn í röð, að elska vestfirðing er einsog að fá rjómatertu á hverju kvöldi í rúmið og á morgnanna er sólin í bollanum. Og ástin lygn.                               

Brynjólfur Þorsteinsson

Ljóðstafur Jóns úr Vör var afhentur í 17. sinn við hátíðlega athöfn í Salnum á afmælisdegi skáldsins þann 21. janúar 2018. Alls bárust 302 ljóð í keppnina en jafnframt voru úrslit í Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs kunngjörð en 170 ljóð bárust frá grunnskólabörnum.
Handhafi Ljóðstafsins árið 2019 er Brynjólfur Þorsteinsson sem fæddur er 1990 en um ljóð hans Gormánuður segir dómnefnd m.a.: „…dregur fram íslenskan hversdag sem birtist dularfullur og margræður, þar sem samruni náttúru og líkama myndar óljós og áhugaverð mörk milli heima“. Dómnefnd skipuðu Bjarni Bjarnason formaður, Ásdís Óladóttir og Ásta Fanney Sigurðardóttir.
Í öðru sæti var Margrét Lóa Jónsdóttir fyrir ljóðið Allt sem lifir deyr og þriðja sætið hlaut Elías Knörr fyrir ljóðið Sunnudögum fækkar með sérhverri messu!
Sérstaka viðurkenningu hlutu auk þess ljóðskáldin Eyrún Ósk Jónsdóttir, Dagur Hjartarson, Arndís Þórarinsdóttir, Vilhjálmur B. Bragason, Hjörtur Marteinsson og Björk Þorgrímsdóttir.

Hlutskörpust í grunnskólakeppninni var Katrín Valgerður Gustavsdóttir sem var verðlaunuð fyrir ljóðið Súðavík en hún er nemandi í 10. bekk Kárnsesskóla. Í öðru sæti var nemandi í 6. bekk Hörðuvallaskóla, Örn Tonni Ágústsson Christensen fyrir ljóðið Englar og í þriðja sæti Margrét Hrönn Róbertsdóttir í 10. bekk Kársnesskóla fyrir ljóðið Hæ.
Þá hlutu sjö nemendur sérstaka viðurkenningu en þau eru: Daníel Ingi Þorvaldsson 5. EP Snælandsskóla, Elmar Daði Ívarsson 6. L Hörðuvallaskóla, Emilíana Unnur Aronsdóttir 9.X Kársnesskóla, Hrenfa Lind Grétarsdóttir í 7. A Álfhólsskóla, Margrét Hrönn Róbertsdóttir í 10. H Kársnesskóla, Snorri Sveinn Lund í 6. L Hörðuvallaskóla og Urður Matthíasdóttir í 9. Krækilingi Vatnsendaskóla.
Við athöfnina fluttu Hildigunnur Einarsdóttir mezzósópran og Guðrún Dalía Salomónsdóttir píanóleikari lög Þorkels Sigurbjörnsson við ljóð Jóns úr Vör.
Rökstuðningur dómnefndar um ljóðið Gormánuður eftir Brynjólf Þorsteinssonar handhafa Ljóðstafs Jóns úr Vör 2019:
"Vinningsljóðið í keppninni um Ljóðstaf Jóns úr Vör 2019 dregur fram íslenskan hversdag sem birtist dularfullur og margræður, þar sem samruni náttúru og líkama myndar óljós og áhugaverð mörk milli heima. Skáldið fer með lesandann í tímaflakk með fyrsta orði en titillinn Gormánuður er upphafsmánuður vetrar og vísar til sláturtíðar samkvæmt forna norræna tímatalinu. Innvols dýrs verður uppdráttur að morgundegi sem er hugsanleg veðurspá í gömlum göldrum, við erum minnt á að einblína á fjaðursortann, stara inn í myrkrið, kryfja gat sem er munnur þar sem orðin myndast og þar lesum við í framtíðina með dauðanum sem bíður okkar, heyrum áminningu um brothætt líf eða ást sem sundrast jafn auðveldlega og ber undir tönn. Hið unga skáld fléttar listilega saman andstæðum þar sem ljós og sorti, fortíð og nútíð mynda meistaralega smíðaða heild sveipaða myndríkri dulúð."
Ásdís Óladóttir, Ásta Fanney Sigurðardóttir.,Bjarni M. Bjarnason.
Jón úr Vör fæddist á Vatneyri við Patreksfjörð 21. janúar 1917 en starfaði lengst af í Kópavogi þar sem hann var hvatamaður að stofnun bókasafnsins og síðar fyrsti bæjarbókavörður bæjarfélagsins. Jón starfaði að menningarmálum með ýmsum hætti, var til dæmis bæði bóksali og ritstjóri, en fyrst og fremst var hann brautryðjandi í íslenskri ljóðagerð. Fjölmargar ljóðabækur hans lifa með þjóðinni og ber þá helst að nefna óð hans til æskustöðvanna, ljóðabálkinn Þorpið. Jón úr Vör lést 4. mars árið 2000 og frá árinu 2002 hefur Lista- og menningarráð Kópavogsbæjar afhent Ljóðstaf Jóns úr Vör á fæðingardegi skáldsins.

Ljóðstafur Jóns úr Vör 2019
Brynjólfur Þorsteinsson
Gormánuður

allir hrafnar eru gat
líka þessi sem krunkar
uppi á ljósastaur

eins og brot
í himingrárri tönn

sjóndeildarhringurinn nakin tré
skorpin vör

pírðu augun
einblíndu á fjaðursortann

það glittir í úf

allir hrafnar eru gat
og innvolsið uppdráttur að morgundegi

líka í þessum sem krunkar
uppi á ljósastaur

lestu hann
með vasahníf og opinn munn

hjartað springur
eins og ber undir tönn

bragðið er svart

Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs 2019
Katrín Valgerður Gustavsdóttir
Súðavík

Myrkur
Kílómetrum saman
Smýgur á milli minnstu glufa og sest á
fingurgóma mína

Þögnin
Svo ógurlega hávær
Borar sig inn í heilann á mér
og vekur hjá mér ónotatilfinningu
Undarlega hughreystandi
og glottir út í annað

Kuldinn
Eins og löðrungur beint í andlitið
og einu sannindin um að þetta sé ekki yfirstaðið

Með hverri sekúndu sem líður
rennur burtu sandkorn af von.

Sindri Freysson

Sindri Freysson fékk afhentan Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóðið Kínversk stúlka les uppi á jökli á Ljóðahátíð Kópavogs 21. janúar 2018.

Þetta er í sautjánda sinn sem Lista- og menningarráð Kópavogs afhendir Ljóðstaf Jóns úr Vör. Viðurkenningin var veitt við hátíðlega athöfn í Salnum í Kópavogi af Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra og Karen E. Halldórsdóttur formanni Lista- og menningarráðs.

Alls bárust 278 ljóð í keppnina að þessu sinni. Í öðru sæti var Hrafnhildur Þórhallsdóttir með ljóð sitt Elegía en Valgerður Benediktsdóttir hlaut þriðja sætið fyrir ljóðið Íshvarf. Þá fengu átta ljóð viðurkenningar.

Einnig voru tilkynnt úrslit í ljóðasamkeppni grunnskólanna í Kópavogi. Henrik Hermannsson hlaut þar fyrstu verðlaun fyrir ljóðið Myrkrið. Höfundur er nemandi í 7. bekk í Hörðuvallaskóla. Í öðru sæti var ljóðið Frelsi eftir Eyrúnu Flosadóttur. Hún er nemandi í 9. MSJ í Kársnesskóla. Ljóðið Allt eða ekkert eftir Söndru Diljá Kristinsdóttur var í þriðja sæti en Sandra er í 8. bekk Salaskóla. Vinningsljóðum grunnskólanema verður dreift um bæinn á veggspjöldum og bókamerkjum.

Vinningsljóð Ljóðstafs Jóns úr Vör 2018
Sindri Freysson
Kínversk stúlka les uppi á jökli

Í þessu landi
leynast engir brautarpallar
með þokuskuggum að bíða tvífara sinna
Engar mystískar næturlestir
sniglast gegnum myrkrið á hraða draumsins
Engir stálteinar syngja
fjarskanum saknaðaróð

Í þessu landi
situr rúta föst á jökli
Hrímgaðar rúður
Framljósaskíma að slokkna
Frosin hjól að sökkva
Andgufa sofandi farþega
setur upp draugaleikrit

Og á aftasta bekk
les kínversk stúlka
um lestargöng sem opnast og lokast
einsog svart blóm

Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs
Henrik Hermannsson
Myrkrið

Það er dimmt og ég er hræddur
ég veit ekki hvert ég er að fara eða hvar ég á heima.
Vindurinn blæs á móti mér og það rignir
mér finnst ég vera einhver annar.
Ég hleyp eins hratt og ég get.
Ég heyri öskur og hleyp enn hraðar
inn í myrkrið.
Ég hleyp bara eitthvert í von um að ég komist heim.
Ég er þreyttur og mig langar að sofna
en ég get það ekki og verð að halda áfram
en ég er rennblautur og leggst á jörðina.
Ég gefst upp og hætti að reyna
ég vissi að það var enginn tilgangur að reyna.
En í sama bragði sá ég spegilmynd mína
ég spyr sjálfan mig hvað get ég gert?
Ég ákvað að ég ætlaði ekki að gefast upp
ég stóð upp og hljóp eins hratt og ég gat.
Ég sá ljós þarna átti ég heima.

Ljóðstafur Jóns úr Vör 2018
Hrafnhildur Þórhallsdótti
Elegía

Fullvaxin spegilmynd

gegnumlýst

í röntgengeislum

Nýársdags.

 

Brotið kjúkubein

á baugfingri vinstri handar,

brak bernskunnar

ryðgað milli bringspalanna.

Höfuðkúpan

loftþéttur kúpull

úr gleri,

lagður yfir safn stillimynda;

augu föður míns í baksýnisspeglinum á gömlum trabant snemma á níunda áratugnum.

Hendur hans herða gjörðina utan um ávalan kvið hestsins, úfinn í vetrarfeldinum, áður en hann lyftir

mér á bak.

Risavaxinn líkami þyrlunnar þar sem við stöndum hönd í hönd í opnu flugskýlinu þaðan sem sér í hafið.

Heiðursvörður við fánaklædda líkkistu á hafnarbakkanum á hryssingslegum degi í nóvember.

/.../

Að lifa lífi sínu einn.

(vakna

vaka

sofna

sofa)

og grafa spörfugla gærdagsins

án hluttekningar,

því nándin

er dýpsta

sárið.

 

Rafglóandi taugabrautir

- göng

í gegnum tímann –

rangt tengdar

við sjálfið;

hvern dag horfi ég á hendur mínar

- líflínan

morkin gúmmíteygja, trosnuð í báða enda –

og minni mig á

ártalið;

frumurnar

sem skipta sér;

aldur

tanna minna og beina;

barnið sem varð fullorðið.

 

Í sjónjaðrinum björgunarþyrlan.

Ljóðstafur Jóns úr Vör 2018
Valgerður Benediktsdóttir
Íshvarf

Hún gengur á ísilögðu vatninu
og hvergi heyrist brestur

Því ísinn er jafnþykkur söknuðinum

 

og hún gengur og gengur og

það er ekki fyrr en hún sér sólina á ný

sem ísinn tekur að þiðna og áður en varir

gengur hún í vatni hún breiðir út

faðminn og syndir í vatninu hún baðar sig

í fersku vatninu

 

og þegar hún stígur aftur á land

er hún sterkari en allur ís

sem hún hefur gengið á

sterkari en vatnið sem hún faðmaði

sterkari en allt nema

 

söknuðurinn

sem fylgir henni

og býr í henni og gerir hana

 

sterka

Ásta Fanney Sigurðardóttir

Úrslit sextándu samkeppninnar um Ljóðstaf Jóns úr Vör voru í dag tilkynnt við hátíðlega athöfn í Salnum í Kópavogi. Handhafi Ljóðstafsins árið 2017 er ljóðskáldið Ásta Fanney Sigurðardóttir (f. 1987) fyrir ljóðið Silkileið nr. 17. Í öðru sæti var Áslaug Jónsdóttir (f. 1963) og í þriðja sæti Fríða Ísberg (f. 1992). Það var hátíðleg stemning á afhendingunni, enda eru í dag 100 ár frá fæðingu Jóns úr Vör.

Úr umsögn dómnefndar:

Umbreytingar einkenna verðlaunaljóðið; það kallar fram í huganum myndir af nánd og nálægð en um leið af fjarska og fjarlægð. Ljóðið virðist fjalla um samskipti tveggja einstaklinga en um leið tengir það saman gamla og nýja tíma og ólíka menningarheima. Það er ró og æðruleysi í rödd þeirrar sem talar í ljóðinu og samt er engu líkara en úr orðunum verði til kvikmynd með hröðum klippingum. Það er farið hratt milli sviða frá snjó og vetri og þröngu sjónarhorni á plöntu í krukku og þaðan yfir í stærri heim með vísunum til tenginga við Austurlönd fjær og eyðimerkur í Miðausturlöndum uns snúið er aftur til einangraðar sveitar og veturs á Íslandi. Verðlaunaljóð er gott dæmi um sköpunarmáttinn sem býr í málinu og skáldskapnum og sýnir vel hvað eitt lítið ljóð getur rúmað stóran heim og opnað margar leiðir til túlkunar.

Í dómnefnd sátu skáldin Anton Helgi Jónsson, formaður, Ásdís Óladóttir og Bjarni Bjarnason. Hátt í þrjú hundruð ljóð frá skáldum af öllu landinu bárust í keppnina sem lista- og menningarráð Kópavogs stendur fyrir.

Við sama tækifæri voru afhent verðlaun og viðurkenningar í Ljóðasamkeppni Grunnskóla Kópavogs. Nemendur úr Kársnesskóla voru þar hlutskarpastir en Rebekka Rún Oddgeirsdóttir lenti í fyrsta sæti og Ásta Hauksdóttir í öðru sæti. Benedikt Árni Björnsson úr Salaskóla lenti í þriðja sæti, en öll eru þau í tíunda bekk. Átta önnur skáld á aldrinum 11-16 ára fengu viðurkenningar í keppninni.

Vinningsljóð Ljóðstafs Jóns úr Vör 2017
Ásta Fanney Sigurðardóttir
Silkileið nr. 17

þú breyttir mér óvart í vetur

og hélst ég væri planta (og sól og ský)

sem vökvaði sjálfa sig með snjó

og geymdir mig í brjóstvasa í krukku með mold

og úr laufunum láku silkileiðir í gegnum saumana

að tölu sem ég þræddi eitt sinn með hári

ég ferðast þaðan á hraða úlfalda

því annars verður sálin eftir segja arabar

í eyðimörk skyrtu þinnar

(sem minnir á handklæði)

er ég týnd í sveit milli sanda

of nálægt

til að geta aðskilið

jörð og skinn

svo ég skauta bara hér

þar til vorar

 

 

Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs 2017
Rebekka Rún Oddgeirsdóttir
Heimþrá

Þegar litla gula hænan bakaði brauðið,

úlfurinn át Rauðhettu

og Fríða kyssti dýrið

þá var allt svo auðvelt.

 

Við vorum ung.

 

Hvert fór þetta allt?

 

Bráðum þurfum við að borga skatta,

keyra bíl og bera fulla ábyrgð á sjálfum okkur.

 

Hvar er þessi tímavél sem ber okkur aftur um tíma og rúm?

 

Mér finnst við standa í eilífum ruggandi báti sem virðist ekki stoppa.

 

Hvert fór barnið?

Vinningshafar 2002-2016

2016
Dagur Hjartarson: Haustlægð 

2015
Ljóðstafur ekki veittur 

2014
Anton Helgi Jónsson: Horfurnar um miðja vikuna

2013
Magnús Sigurðsson: Tungsljós

2012
Hallfríður J. Ragnheiðardóttir: Triptych 

2011
Steinunn Helgadóttir: Kaf 

2010
Gerður Kristný: Strandir

 2009
Anton Helgi Jónsson: Einsöngur án undirleiks 

2008
Jónína Leósdóttir: Miðbæjarmynd

 2007
Guðrún Hannesdóttir: Offors

 2006
Óskar Árni Óskarsson: Í bláu myrkri

 2005
Linda Vilhjálmsdóttir: Niður

2004
Hjörtur Marteinsson: Hvorki hér né ...

2003
Ljóðstafur ekki veittur

2002
Hjörtur Pálsson: Nótt frá Svignaskarði

Upplýsingar um handhafa Ljóðstafs Jóns úr Vör og verðlaunahafa og úrslit úr grunnskólakeppninni má nálgast á Kopavogur.is