Handhafar Ljóðstafs Jóns úr Vör

Ljóðstafur Jóns úr Vör hefur verið veittur frá árinu 2002. Hér á síðunni má nálgast öll sigurljóð keppninnar frá upphafi auk þeirra ljóða sem lent hafa í öðru og þriðja sæti.

Brynja Hjálmsdóttir

Ljóðstafur Jóns úr Vör var veittur við hátíðlega athöfn í Salnum í Kópavogi sunnudaginn 20.febrúar en hátíðin fagnar tuttugu ára afmæli sínu um þessar mundir.

Ljóðstafinn hlaut Brynja Hjálmsdóttir fyrir ljóðið Þegar dagar aldrei dagar aldrei.

Jakub Stachowiak hlaut önnur verðlaun fyrir ljóðið Dreymt á jafndægurnótt og þriðja sæti hlaut Elín Edda Þorsteinsdóttir fyrir ljóðið Kannski varstu allan tímann nálægt.

Að auki hlutu sjö ljóð sérstaka viðurkenningu dómnefndar: Svefnrof eftir Draumeyju Aradóttur, Getraunir eftir Guðrúnu Brjánsdóttur, Vista Canale eftir Hallgrím Helgason, Kvöldganga að hausti eftir Jón Hjartarson, Það sem ég á við með með orðinu hjónasæng eftir Ragnar H. Blöndal og Silfurstrengir og A-hús eftir Sigrúnu Björnsdóttur.

Hér má nálgast smárit með öllum þeim ljóðum sem hlutu verðlaun og viðurkenningar í samkeppninni um Ljóðstaf Jóns úr Vör og Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs. 

Ljóðstafur Jóns úr Vör 2022
Brynja Hjálmsdóttir
Þegar dagar aldrei dagar aldrei

Alltaf springa þau
á veturna
handarbökin
ekki í loft upp heldur eftir rásum

Skurðir kvíslast
skinn flagnar
eins og í mótmælaskyni:
nú er nóg komið

Sprungur
í uppurinni uppsprettu
mósaíkmynd
fúgan milli flísanna er rauð

Rauðir skipaskurðir:
gluggar inn í annan heim
innanverðan heiminn

Hún ber smyrsl á öll þessi ósköp
eins og til að sparsla í gamlar holur
sem hún boraði ekki sjálf
ekki ein í það minnsta
en hér alltaf svo kalt og smyrslið
bara frýs
eins og hvað annað

Hér er auðvelt að gleyma
að sólin sé alvöru himintungl

En alltaf finnst fólk
sem er of latt
til að bera inn ljósin hundraðþúsund
sem það strengdi í trén
fléttaði um svalirnar
um handriðin og húnana

Fólkið er þreytt

Því hanga þau þarna enn
sindrandi

tær

Ljóðstafur Jóns úr Vör. 2. sæti
Jakub Stachowiak
Dreymt á jafndægurnótt

Í regnúðakenndri
septemberþoku
tipla ég á tánum
trufla ekki þögnina
í drykklanga stund
heyrist ekkert

þar til þögnin verður svo djúp
að ég heyri hrotur
í líkkistusmiði
úr húsinu spölkorn frá

ég elti þær þar til ég kem
í furðulegan kirkjugarð

í stað legsteina
gægjast þar úr moldinni
horn blindra dádýra

 

 

Ljóðstafur Jóns úr Vör. 3. sæti
Elín Edda Þorsteinsdóttir
Kannski varstu allan tímann nálægt

Stundum villist þú
og þarft að hjóla í marga hringi
og fylla lungun af framandleika

og stundum þarftu að stíga af hjólinu og rölta
og kannski setjast á bekk
og lesa í húsin eins og andlit á óskýrri hópmyn
og fylgja síkjum, mávum og gæsum
og finna frumstæðan áttavita
dyrabjöllur, þök, tjarnir, strompa, hægri og vinstri

og stundum dimmir
og ljósastaurarnir eru einu vinir þínir
en jafnvel þeir gefast upp
og sem betur fer ertu með svefnpoka
og þegar þú vaknar ertu í litlum almenningsgarði
eða í verslunarkjarna
sem fyllist af fólki
og þú brýtur heilann um hvort þetta sé fólk að þínu skapi
og þú kíkir ofan í innkaupapoka, bakpoka og veski
og gerir könnun:
hvað borðar fólkið?
hvað les fólkið?
hvað kýs fólkið?
hefur fólkið smekk fyrir þér?

Ef ekki heldurðu áfram
kíkir inn um alla glugga
rannsakar gardínur, málverk, hrærivélar,  hraðsuðukatla

Þangað til þú hittir mann með blómvönd
eða konu í ullarsokkum eða anda
og þú gefst upp
og spyrð hvar þú eigir heima
og maðurinn eða konan eða andinn
leiðir þig heim

þótt þetta sé kannski ekki blómvöndur að þínum smekk
eða ullarsokkar eða andardráttur

þá líður þér betur
innan um grænan sófa, rimlagardínur og landslagsmálverk

Þórdís Helgadóttir

Þórdís Helgadóttir, heimspekingur og rithöfundur, hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör 2021 fyrir ljóðið FASASKIPTI. Í öðru sæti var Eyþór Árnason, sviðsstjóri og skáld, fyrir ljóðið Skrítnir dagar og í þriðja sæti var Una Björk Kjærúlf fyrir ljóðið Óvænt stefnumót. Að auki hlutu sjö ljóð sérstaka viðurkenningu dómnefndar. Þar af voru þrjú ljóð eftir Eyþór ÁrnasonGömul bylgjulengd, Maxím Gorkí og Vindmyllur, tvö ljóð án titils eftir Bjarna Bjarnason, ljóðið Hendur eftir Hauk Þorgeirsson og HEIMSÓKN eftir Hjört Marteinsson 

331 ljóð barst í keppnina  í ár en ljóðin mega ekki hafa birst áður og skulu send inn undir dulnefni höfundar. Dómnefnd skipuðu Ásta Fanney Sigurðardóttir, Eiríkur Ómar Guðmundsson og Kristín Svava Tómasdóttir.   

Ljóðstafur Jóns úr Vör 2021
Þórdís Helgadóttir
FASASKIPTI

Ég elska börnin mín og börnin sem börnin mín

Elska og börnin sem elska börnin mín.

Þau keyra kuldaskó í gegnum í sinn þegar

Tjörnina hefur lagt. Þau elska að beita afli.

Brjóta flísar úr ísingunni og halda þeim upp að

Andlitinu. Ég sé þau út um gluggann, saltsleikt

Auga hússins. Þau smá mig gegnum tært gler.

Ljósgul skíma og svo dimmir. Þannig er tíminn

Skorinn í sneiðar, hvítar og svartar, skiptingin

Ekki bróðurleg frekar en á öðrum gæðum.

Frostið herðir á aðgreiningunni milli heima

Og breytir lygum í sannindi. Gerir göngubrú úr

Svokölluðu yfirborði vatnsins. Ef falskir botnar fela

Eitur eða fjársjóði, hvað felur þá falskt yfirborð?

Börnin en ekki ég treysta gljúfri himnunni

Yfir handanheiminum þar sem andardrátturinn

Rennur í öfuga átt. Enda er stutt síðan þau komu

Í gegn, önduðu hringöndun meðan þau drukku,

Fljótandi fæði úr sykurbrjósti. Þau bíta í rendurnar

Bryðja glerbrjóstsykur, stolt af styrk sínum.

Í barnatennur vantar taugarnar fyrir tannkul.

Það blómstrar ætiþistill í eldhúsglugganum.

Enginn elskar veturinn eins og börnin mín.

 

Ljóðstafur Jóns úr Vör 2021: 2. sæti
Eyþór Árnason
Skrítnir dagar

Á þessum tímum

þegar lásbogar daganna

spennast upp einn af öðrum

set ég verði á litlu trébrúna í gilinu

 

Þeir hleypa engum yfir nema þeim

sem hafa uppáskrifað frá yfirvöldum

réttindabréf í byggingu skýjaborga

 

Frammi í dalnum tjöldum við, hlustum

á stjörnuhröp og kveikjum langelda

meðan harmonikan sefar fuglana

 

Senn rísa borgirnar

 

Og það verð ég að segja

að ég hef ég ekki kastað

draumum mínum

fyrir ljónin

Ljóðstafur Jóns úr Vör 2021: 3. sæti
Una Björk Kjerúlf
Óvænt stefnumót

Á opnu í stafrófsbók er mynd af kolkrabba og ljóni

 

Frá upphafi tímans hafa augu þessara dýra aldrei mæst

annars staðar en þarna

 

Björk Þorgrímsdóttir
Ljóðstafur Jóns úr Vör 2020
Björk Þorgrímsdóttir
Augasteinn

undan nóttinni vaxa trén

við vorum sammála um það

hvort var það ég eða þú sem komst aftur?

var ég heilög og húðin sjúklega geislandi

kjarni sítrusávaxta

 

við ræddum lófana í hljóði

góm við góm

meðan augasteinarnir sukku

sáttlausir í myrkrinu

 

það fæst engin medalía fyrir tilraunastarfsemi

 

þú með þína klofnu tungu

og ég sem næli orðunni

rétt undir viðbeinið

Ljóðstafur Jóns úr Vör 2020: 2. sæti
Freyja Þórsdóttir
Lífvera hljóðar í fyrsta sinn

freyja.jpg

Ljóðstafur Jóns úr Vör 2020: 3. sæti
Elísabet Kristín Jökulsdóttir
Að elska vestfirðing

Að elska vestfirðing er að elska hafið í augum hans, norðanáttina sem stendur útúr honum þegar hann heldur einræðurnar um ágæti sitt, hrukkurnar á enni hans sem eru einsog skorningarnar á Gleiðarhjalla og benda til þess að ástin hafi hrukkað enni hans þegar hann reyndi að verjast henni, að elska vestfirðing er að trúa á gugguna hvort sem hún var seld eða ekki seld, að elska vestfirðing er að elska bg og ingibjörgu, rækjuna, snjóskaflana, siggu ragnars, gamla bakaríið, allar gömlu ljósmyndirnar, gúttó, villa valla, víking þriðja, hver sé skyldur hverjum, hver bjó hvar, hver er fluttur suður, að elska vestfirðing er að lofsyngja fíflalæti og vitleysisgang, þegar hann kemur í heimsóknar bankar hann ekki en beygir sig niður við dyrnar og galar innum dyralúguna þótt hann sé að verða sextugur, að elska vestfirðing er deyja pínulítið þegar hann byrjar að einangar sig, ekkert flug, engar samgöngur, síminn lokaður og vestfirðingurinn liggur í þunglyndi og rís ekki upp aftur fyrren í lok janúar, þetta er ekkert sem sálfræðingar ráða við, þetta er myrkrið og sólin í sál hans sem hafa sett mark sitt á hann einsog hrukkurnar fjórar á enninu og tákna jafnmargar eiginkonur sem hann skilur ekkert í að hafa yfirgefið því auðvitað yfirgáfu þær ekki hann svona stórkostlegan og að elska vestfirðing er að hlusta á norðanáttina hvína dag eftir dag þegar hann lýsir sjálfum sér og sálarlífi sínu, öllum þessum tvöhundruð togurum sem hann hefur verið á, öllum sem fóru í hafið og öllum sem björguðust, allt myrkrið sem drukkið var og reið honum næstum að fullu og hann vaknaði upp í meðferð og þar voru engin fjöll og ekkert haf þangað til hann hitti annan vestfirðing með Gleiðarhjalla í andlitinu og myrkrið í hverri taug að sligast undan örlögunum og aðeins vitleysisgangurinn gat bjargað þeim einsog sólargangurinn í þessum bæ sem kúrir við ysta haf og þegar ég sakna hans sakna ég ekki hans heldur sakna ég vestfirðings sem ber mig á höndum sér, snýr hlutunum á hvolf, skilur æsinginn, taumleysið, skáldskapinn og hlustar sallarólegur einsog hann hlustar á norðanáttina fjórtánda daginn í röð, að elska vestfirðing er einsog að fá rjómatertu á hverju kvöldi í rúmið og á morgnanna er sólin í bollanum. Og ástin lygn.                               

Brynjólfur Þorsteinsson
Ljóðstafur Jóns úr Vör 2019
Brynjólfur Þorsteinsson
Gormánuður

allir hrafnar eru gat
líka þessi sem krunkar
uppi á ljósastaur

eins og brot
í himingrárri tönn

sjóndeildarhringurinn nakin tré
skorpin vör

pírðu augun
einblíndu á fjaðursortann

það glittir í úf

allir hrafnar eru gat
og innvolsið uppdráttur að morgundegi

líka í þessum sem krunkar
uppi á ljósastaur

lestu hann
með vasahníf og opinn munn

hjartað springur
eins og ber undir tönn

bragðið er svart

Ljóðstafur Jóns úr Vör 2019: 2. sæti
Margrét Lóa Jónsdóttir
Allt sem lifir deyr

tregasöngur gufu sem stígur upp úr hver

meðan sólin þrýstir glóandi tungubroddi ofan í gjótu

við dönsum kringum sjálf okkur einsog skýhnoðrar í golu

holdi klæddur ófullkomleiki undir margföldu lagi af umbúðum

allt sem lifir deyr

hlátur sem gefur til kynna að bernskudraumur sé í þann veginn að rætast

grátur sem kemur upp um óslökkvandi þrá eftir samúð

þögnin sér um að ramma inn myndir af sigrum okkar og ósigrum

mistökum okkar jafnt sem góðverkum – þögnin

hanskaklædd einsog forvörður sem tekist hefur að hreinsa burt

myglu og óhreinindi af ómetanlegu listaverki

allt sem lifir deyr

samvera sem minnir á krukku fulla af lukkumiðum

borgir sem vaka allan sólarhringinn – rándýr sem njótast (og stundum

langar ekkert okkar heim)

kirkja sem er í laginu einsog sæljón horfir til vesturs

höggmynd sem er nýbúin að nema land tekur ferðamönnum

fagnandi og á nóttunni syngja vindar í styttugarði hetjuljóð

í dögun mætir okkur garðhlið þar sem trjálauf ærslast í sólskini

líkt og glitrandi perluhengi – skilrúm milli lifenda og dauðra

minningar erfast muldra veggir sem fylgjast með samanfléttuðum líkömum

klukknahljómar smjúga gegnum skráargöt – brjóta sér leið gegnum steinsteypu

rúðugler og timbur á meðan náttmyrkrið gælir við augasteina okkar og tunglið

fylgist með líkt og alsjáandi auga guðs

– allt sem lifir deyr

Sindri Freysson
Ljóðstafur Jóns úr Vör 2018
Sindri Freysson
Kínversk stúlka les uppi á jökli

Í þessu landi
leyn­ast eng­ir brautar­pall­ar
með þoku­skugg­um að bíða tvífara sinna
Eng­ar mystísk­ar næt­ur­lest­ir
snigl­ast gegn­um myrkrið á hraða draums­ins
Eng­ir stáltein­ar syngja
fjarsk­an­um saknaðaróð

Í þessu landi
sit­ur rúta föst á jökli
Hrímgaðar rúður
Fram­ljósa­skíma að slokkna
Fros­in hjól að sökkva
Andgufa sof­andi farþega
set­ur upp drauga­leik­rit 

Og á aft­asta bekk
les kín­versk stúlka
um lest­ar­göng sem opn­ast og lokast
ein­sog svart blóm

Ljóðstafur Jóns úr Vör 2018: 2. sæti
Hrafnhildur Þórhallsdóttir
Elegía

Fullvaxin spegilmynd

gegnumlýst

í röntgengeislum

Nýársdags.

 

Brotið kjúkubein

á baugfingri vinstri handar,

brak bernskunnar

ryðgað milli bringspalanna.

 

Höfuðkúpan

loftþéttur kúpull

úr gleri,

lagður yfir safn stillimynda;

 

augu föður míns í baksýnisspeglinum á gömlum trabant snemma á níunda áratugnum.

Hendur hans að herða gjörðina utan um ávalan kvið hestsins, úfinn í vetrarfeldinum, áður en hann lyftir

mér á bak.

Risavaxinn líkami þyrlunnar þar sem við stöndum hönd í hönd í opnu flugskýlinu þaðan sem sér í hafið.

Heiðursvörður við fánaklædda líkkistu á hafnarbakkanum á hryssingslegum degi í nóvember.

 

/.../

 

Að lifa lífi sínu einn.

(vakna

vaka

sofna

sofa)

og grafa spörfugla gærdagsins

án hluttekningar,

því nándin

er dýpsta

sárið.

 

Rafglóandi taugabrautir

- göng

í gegnum tímann –

rangt tengdar

við sjálfið;

 

hvern dag horfi ég á hendur mínar

- líflínan

morkin gúmmíteygja, trosnuð í báða enda –

og minni mig á

ártalið;

frumurnar

sem skipta sér;

aldur

tanna minna og beina;

barnið sem varð fullorðið.

 

Í sjónjaðrinum björgunarþyrlan.

Ljóðstafur Jóns úr Vör 2018: 3. sæti
Valgerður Benediktsdóttir
Íshvarf

 

Hún gengur á ísilögðu vatninu
og hvergi heyrist brestur

Því ísinn er jafnþykkur söknuðinum

 

og hún gengur og gengur og

það er ekki fyrr en hún sér sólina á ný

sem ísinn tekur að þiðna og áður en varir

gengur hún í vatni hún breiðir út

faðminn og syndir í vatninu hún baðar sig

í fersku vatninu

 

og þegar hún stígur aftur á land

er hún sterkari en allur ís

sem hún hefur gengið á

sterkari en vatnið sem hún faðmaði

sterkari en allt nema

 

söknuðurinn

sem fylgir henni

og býr í henni og gerir hana

 

sterka

 

Ásta Fanney Sigurðardóttir
Ljóðstafur Jóns úr Vör 2017
Ásta Fanney Sigurðardóttir
Silkileið nr. 17

þú breyttir mér óvart í vetur

og hélst ég væri planta (og sól og ský)

sem vökvaði sjálfa sig með snjó

og geymdir mig í brjóstvasa í krukku með mold

og úr laufunum láku silkileiðir í gegnum saumana

að tölu sem ég þræddi eitt sinn með hári

ég ferðast þaðan á hraða úlfalda

því annars verður sálin eftir segja arabar

í eyðimörk skyrtu þinnar

(sem minnir á handklæði)

er ég týnd í sveit milli sanda

of nálægt

til að geta aðskilið

jörð og skinn

 

svo ég skauta bara hér

þar til vorar

Ljóðstafur Jóns úr Vör 2017: 2. sæti
Áslaug Jónsdóttir
Hrogn og lifur

– Hvaðan utan af landi ertu?
spurði fisksalinn

það var eitt og hálft kíló af hrognum
á milli okkar
og sambandið ekki alveg augljóst
en víst að ég þekkti
innyfli frá dauðyfli

og svarið sendi hugann yfir fjörð
með nokkur forskeyti
í
við
á
úr
frá
en ég deildi ekki um það

– sem sagt ekki í hundraðogeinum í uppeldinu
bætti hann við

og ég sem fagnaði ung og oft
í hundraðogeinum
mundi ekki hvar uppeldið endaði:
– nei

– þá viltu víst lifur?
sagði hann
og hrærði í fatinu

en ég datt inn
í póstnúmer pempíunnar:
– nei takk, það gerir brjóstsviðinn,
skilurðu

hann þerraði fituga höndina
og var létt:
– þetta er heldur ekki mannamatur
hún er full af ormum og ógeði, lifrin

með áhyggjur af hlýnun sjávar
úrkynjun og ormaveitum
og afgreiðslumanni í fiskverslun
sem var of hreinskilinn fyrir starfið
gleymdi ég að spyrja:

– hvaðan utan af landi ertu?

Ljóðstafur Jóns úr Vör 2017: 3. sæti
Fríða Ísberg
Funalind

aspir

sprautaðar í jarðveginn
eins og bráðabólusetning við bílastæðum

þú sparkar fótunum á undan þér

Í gluggum er myrkur en út um hvern einasta
horfirðu á sjálfa þig á götunni

höfuðið liggur á hettunni
stöku fallbeying hrýtur af vörum

af og til líturðu um öxl
á gönguslóðann og aspirnar

gleymir fallbeygingunum
raular textabút úr Smiths lagi

agnið er úti

en hér er enginn, um engan, frá engum
til einskis.

Dagur Hjartarson
Ljóðstafur Jóns úr Vör 2016
Dagur Hjartarson
Haustlægð

haust­lægðin kem­ur að nóttu
og merk­ir tréð í garðinum okk­ar

með svört­um plast­poka
eins og til að rata aft­ur 

og hún rat­ar aft­ur
aðra nótt
öskr­ar eitt­hvað sem eng­inn skil­ur
fleyg­ir á land þangi og þara
og fleiri vængjuðum mar­tröðum
úr iðrum Atlants­hafs­ins

morg­un­inn eft­ir er fjöru­borðið gljá­andi svart
eins og ein­hver hafi reynt að mal­bika leiðina
niður í und­ir­djúp­in

og það er þess vegna sem haust­lægðin kem­ur
utan af haf­inu
hún er rödd þeirra
sem týndu orðaforðanum í öldu­gangi

við horf­um á nýmal­bikaðan veg­inn
og bíðum eft­ir að þeir gangi á land

Anton Helgi Jónsson
Ljóðstafur Jóns úr Vör 2014
Anton Helgi Jónsson
Horfurnar um miðja vikuna

Það er bara miðvikudagur
enn getur allt gerst 
enn er von

enn má finna rétta taktinn
finna sinn hljóm
jafnvel finna sig í góðu lagi

allt getur gerst

meðan enn leynist bílskúr
baka til í hausnum á mér
og band
sem djöflast frameftir.

Magnús Sigurðsson
Ljóðstafur Jóns úr Vör 2013
Magnús Sigurðsson
Tunglsljós: In memoriam

Sólin er hnigin til viðar.

   *

Hver á fætur öðrum
tínast námumennirnir
upp úr jörðinni.

   *

Þeir krjúpa við árbakkann
í kvöldrökkrinu,
drekka úr skálum lófa sinna
og strjúka framan úr sér rykið.

  *

Fölbleik andlit þeirra
eru 20.000 nýkviknuð tungl
á kolsvörtum himni.

 

                                          

 

Hallfríður Ragnheiðardóttir
Ljóðstafur Jóns úr Vör 2012
Hallfríður Ragnheiðardóttir
Triptych

Sakramenti

Einhver hefur saumað útlínur drekans með hárfínum rauðum þræði, líkt og grun, eða skugga, í rautt silkið.

Það er um tvo kosti að velja: að segja já við hinu óumflýjanlega og hefja gullgerð en hafna því ella og búast til varnar.

Há-karlinn hefur verið brytjaður í örsmáa, rauðleita teninga. Ég þigg bita úr silfurskálinni.


Lausnarorð

Hann elskar mig og ég elska hann, glæpamann, morðingja. Við hittumst á torginu og hann vefur mig örmum. “Hvernig hefurðu það, ELSKAN?” Orðið kemur eðlilega og átakalaust út fyrir varir mínar. Við höldum hvort yfirum annað, elskendur frá upphafi vega, og hringsólum hlið við hlið innan um óljósan fjöldann.

Hver var sá guð sem skapaði okkur að skilja?


Opinberun

Fríkirkjan stóð þar sem ég stend nú. Við erum mörg við þessa messu. Horfum í vesturátt og sjá, skyndilega fyllist tjörnin og húmdökkur himinninn yfir af blóðroða. Fagnandi teyga ég hina gullnu veig meðan býðst. Svo er hún jafnskyndilega horfin.

Eftir lifir grunur um gljásvartan flygil undir ísnum á vatni við veginn.

Steinunn Helgadóttir
Ljóðstafur Jóns úr Vör 2011
Steinunn Helgadóttir
Kaf

Sólin lýsti bara upp
yfirborðið
þegar Kursk
hvarf í djúpið.
Hjátrúarfullar eiginkonur
sátu heima.
Þorðu ekki að kveðja.
Sjónpípan er hettuklædd
slanga
og gleraugað skoðar hafflötinn
það er íshröngl úti.
Inni er móða
sólbekkir
sex metra sundlaug
sána tafl fiskabúr
kvikmyndir pottaplöntur köttur ruggustólar.
Suðrænar strendur og furuskógar í myndvarpanum.
Eldkúla og að lokum tíminn.

Gerður Kristný
Ljóðstafur Jóns úr Vör 2010
Gerður Kristný
Strandir

Að vetri

er aðeins fært

hugleiðinaSængurhvít sveitin

breiðir úr sér

innan við augnlokinBjarndýr snuddar í snjó

nær síðasta jaka

til baka

Anton Helgi Jónsson
Ljóðstafur Jóns úr Vör 2009
Anton Helgi Jónsson
Einsöngur án undirleiks

Röðin við kassann er löng og hún lengist.
Hún lengist og lengist. Ég bíð og ég bíð.
Mér hitnar í kinnum. Það er komið að mér.
Það er fólk fyrir aftan. Það bíður og bíður.
Helvítis stelpan. Það er ekki heimild.
Ég lít ekki um öxl. Ég veit að það sér mig.
Það er ekki heimild. Það þekkir mig enginn.

Það þekkir mig enginn. Það er komið að mér.
Ég ætla að ferðast. Ég bíð og ég bíð.
Dansa frá mér vitið á karnivali í Ríó. Gantast við norðurljós allsber í potti.
Syndi með höfrungum. Reyki hass.
Helvítis stelpan.Það er ekki heimild.

Það er ekki heimild. Ég lít ekki um öxl.
Mæti í úthverfri peysu. Set iljar í sandinn.
Mér hitnar í kinnum. Mín fróun er núna.
Fæ bréf í pósti frá öðrum en banka.
Það bíður og bíður. Ég bíð og ég bíð.

Ég bíð og ég bíð. Það er komið að mér.
Ég næ sáttum við líf mitt. Það bíður og bíður.
Ég reiðist og öskra. Það er ekki heimild.
Loks segi ég: Nei. Mér hitnar í kinnum.

Mér hitnar í kinnum. Helvítis stelpan.
Finn handleggi hlýja um háls minn að nýju.
Það skrjáfar í poka. Ég lít ekki um öxl.

Ég lít ekki um öxl. Það er fólk fyrir aftan.
Mér hitnar í kinnum. Það er komið að mér.

Það er komið að mér. Ég bíð og ég bíð

Jónína Leósdóttir
Ljóðstafur Jóns úr Vör 2008
Jónína Leósdóttir
Miðbæjarmynd

bakið bogið af bogri
á austrænum ökrum

frá sólarupprás
til sólseturs

hörundið hrjúft
eftir óvægna asíska sól

tínir upp tómar flöskur
í hrollköldu tómasarstræti

frá sólsetri að sólarupprás

aðkomukona

á ótrúlega rauðum skóm

Guðrún Hannesdóttir
Ljóðstafur Jóns úr Vör 2007
Guðrún Hannesdóttir
Offors

Runninn upp á fjarlægum fljótsbökkum
og hefur tyllt silfurbleikum hóf
lymskulétt
í fráleitustu pláss
og þanið fót sinn
fagurrenndan og rauðan
úthafa á milli

(eðli sínu fær hann aldrei leynt
til lengdar
þó soðinn sé
um sunnudagsbil
í dísætan graut
af albestu konu
og borinn fyrir biskup biskupsson
í margvígðum kristal
með sykri og rjóma
er hann hinn sami)

eitursperrtur alla tíð
og hvergi sem í eyðibyggðunum
þar sem hann trónir yfir tóftunum
þurrum og óhuggandi brunnunum
brostnum vonum
draumi og þrám
hinna horfnu

þar stendur hann einn
fagurgrænn og fagnandi

hans stund komin
réttur tími runninn upp!

Óskar Árni Óskarsson
Ljóðstafur Jóns úr Vör 2006
Óskar Árni Óskarsson
Í bláu myrkri

Á kvöldin sópa ég sólskininu af þökum húsanna

kveiki rauðan glampa í rúðum

fylli höfnina af logandi skuggum

og breiði stjörnuskikkjuna yfir himininn

ég er nafnlaus eins og andvarinn

sem bærir gluggatjaldið

ljósið sem kviknar um leið og það deyr

blossinn í fingrum myrkursins

ég færi ykkur nótt flugmannsins

rifin segl draumanna

inn í svefninn ferðast bifreið

sendibréf í hanskahólfi

ljósmynd af bláu myrkri

ég breyti syrgjendum í blóm

hengi gifshendur í trén

trekki upp spiladósir bernskunnar

horfi á þung augnhár þín síga

vegvísar þjóta gegnum ljósaskiptin

þar sem fjallsbrúnirnar loga

og stúlkan við bensíndæluna snýr vinstri vanga að tungli

sem glottir milli tinda

Linda Vilhjálmsdóttir
Ljóðstafur Jóns úr Vör 2005
Linda Vilhjálmsdóttir
niður

niður

síra Hallgrímur

nú vil ég niður

niður fyrir þóttafull þrumuskýin

sem byrgja mér sýn

niður fyrir huglægu háspennulínurnar stuðið

og stöðugan skjálftann

niður fyrir fasta flugleið þráhyggjuþyrlunnar

niður úr skakka fílabeinsturninum

og upphækkaða prédikunarstólnum

niður af stallinum

niður á jörðina

niður á hnén

niður úr ráðríki hugans

niður fyrir barkann

og alla leið niður í hjartað

þar vil ég vera síra Hallgrímur

því þar er allt skírt

Hjörtur Marteinsson
Ljóðstafur Jóns úr Vör 2004
Hjörtur Marteinsson
Hvorki hér né . . .

Hann lét sem hann væri hvorki hér né nú

eftir að hann kom af sjónum um vetur

og kallaði til vitnis þokuna

sem hann var vanur að sveipa sig þegar hann fór með konunni í fatabúðir

í leit að því sem hann sagði að fengist ekki.

Hún hafði þessa löngun að gera hann sælan

þótt sjálfum þætti honum hann vera staddur í fjarska

og gömlu fötin enn dýrleg.

Kominn heim lagðist hann venjulega í nýju jakkafötunum upp í eftirlætissófann sinn.

Þegar hann hafði sofnað út af lagði hún eyrað að brjósti hans.

Þá heyrði hún lágvært garg í fugli og öldunið.

Á sömu stundu fannst henni sófinn svífa yfir úthafinu

og hamingja þeirra nærri.

Hjörtur Pálsson
Ljóðstafur Jóns úr Vör 2002
Hjörtur Pálsson
Nótt frá Svignaskarði

Hver varstu? Hvað greip þig

goðsögn í líki hests

með glóð í auga, styggð í hverri taug

og brotnandi öldur brims í hlustum þínum?

Þú þyrlar upp stjörnum

stælt með titrandi bóga

og stefnir burt

yfir holt, yfir klappir og flóa

orðin að logandi þrá til að flýja frjáls

út í fjarskann...

Þitt heimkynni var ekki hérað blánandi jökla

hraun og mýrar né borgin

þar sem þú stóðst...

nei, heimkynni þitt var hafið

sem býr í oss öllum

...og himinninn sem oss dreymir...

Hófadynur!

Þú stefnir til hafs og stekkur

í freyðandi brimið

fram af ísgrænni skör.

Áttfætti hestur!

Svo hófst þín vængjaða för

um undirdjúpin

upp í sjöunda himin.

Vængjaða Nótt!

Nú heyri ég fax þíns flug

sé froðuna löðra um granir

á skýjanna vegi

með styggð í blóði stefnir þú enn sem fyrr

með stormbláar manir

á móti glófextum Degi.