Söfnum hausti

Ljósmyndamaraþon Menningarhúsanna í Kópavogi
Haustfrí grunnskóla Kópavogs 2020

Ljósmyndamaraþon Menningarhúsanna í Kópavogi er fjörugur þrautaleikur fyrir hressa krakka í haustfríi, fjölskyldur þeirra og vini!

Að auki geta þátttakendur sem deila þrautamyndum undir myllumerkinu #söfnumhausti átt von á skemmtilegum vinningum.

Hér fyrir neðan eru þrautirnar upptaldar með nákvæmum leiðbeiningum - einnig er hægt að prenta þrautalistann út á sérskjali hér.

Góða skemmtun!

1

Sandur og steinar

Það er fátt notalegra en að ganga um berfættur í mjúkum og notalegum sandi, byggja glæsihallir og kastala og gleyma stað og stund. En það er líka hægt að skrifa í hann! Veldu þér eitt orð (sem lýsir t.d. góðum tilfinningum á borð við gleði og hamingju, nú eða fjöri) og skrifaðu í sandinn. Þú getur einnig safnað saman smásteinum og skrifað orðið þitt með þeim.

Taktu mynd og deildu undir myllumerkinu #söfnumhausti.

2

Haustfuglar

Með kólnandi veðri fljúga farfuglarnir af stað frá Íslandi til heitari landa þar sem þeir dvelja yfir vetrartímann. Öðrum líkar samt ósköp vel að vera hér á veturna og fara hvergi. Þeir kallast staðfuglar. Horfðu í kringum þig og reyndu að koma auga á fugl eða fugla, t.d. sitjandi í tré, niðri í fjöru, á tjörn eða á flugi.

Taktu mynd og deildu undir myllumerkinu #söfnumhausti.

3

Faðmaðu tré

Nú eru skrýtnir tímar og margt sem við megum ekki gera eins og áður, eins og t.d. að faðmast. En hvernig væri að prófa að faðma tré í staðinn? Það veitir bæði góða orku og róar hugann. Finndu tré sem þér líst vel á og faðmaðu það að þér. Prófaðu líka að loka augunum. Athugaðu samt að vinsæl knústré geta verið varasöm á Covid-tímum svo gættu þess vel að velja tré sem er utan alfaraleiða og er t.d. ekki beint við göngustíginn.

Taktu mynd og deildu undir myllumerkinu #söfnumhausti.

4

Haustlauf

Það hefur líklega ekki farið fram hjá þér hvað laufin eru óskaplega falleg á litinn um þessar mundir! Gul, rauð, græn, appelsínugul og alls konar! Safnaðu saman mismunandi haustlaufum í eins mörgum litum og þú finnur og raðaðu þeim upp í fallegt lauflistaverk.

Taktu mynd og deildu undir myllumerkinu #söfnumhausti.

5

Hoppaðu

Hversu hátt geturðu hoppað? Prófaðu að hoppa og fáðu vin eða fjölskyldumeðlim til að taka mynd af þér þegar fæturnir snerta ekki jörðina. Þá er eins og þú fljúgir!

Deildu undir myllumerkinu #söfnumhausti.

6

Haustkóróna

Haustið býður upp á hlaðborð af fallegum efniviði sem gaman er að leika sér með! Könglar, greinar, laufblöð, reyniber og strá eru t.d. sannkölluð höfuðprýði! Nýttu eyrnabandið þitt, húfuna eða buffið og búðu til kórónu úr því sem þú finnur í náttúrunni. Því villtari, því betri!

Taktu mynd og deildu undir myllumerkinu #söfnumhausti.

7

Skýjamyndir

Skýin eru síbreytileg og mynda oft glæsilegar myndir á himninum. Eldspúandi drekar, fljúgandi furðuhlutir, skringileg dýr, tröllkarlar með stór nef og ýmislegt annað kemur og fer í vindinum. Prófaðu að leggjast á jörðina og horfa upp í himininn. Hvaða skýjamyndir birtast þér?

Fylgstu með myndunum breytast, taktu síðan ljósmynd og deildu undir myllumerkinu #söfnumhausti.

8

Útsýni

Til að heimurinn stækki og sálin syngi er nauðsynlegt að sjá vel út. Oft er gott að fara upp á hól, hæð eða tröppur - þá sést lengra og víðara yfir! Átt þú þér uppáhalds útsýnisstað hér í Kópavogi? Komdu þér vel fyrir, njóttu stundarinnar, andaðu djúpt og skynjaðu útsýnið þitt.

Taktu síðan mynd og deildu undir myllumerkinu #söfnumhausti.

9

Flipp í fríi

Það er alltaf gaman að flippa smá – sérstaklega þegar maður er í fríi! Hvernig flipp túlkar best þína haustfrísgleði? Er það kannski dans, handahlaup, fyndin grettumynd, bros framan í heiminn – eða eitthvað allt annað?

Finndu þitt gleðiflipp, taktu mynd og deildu undir myllumerkinu #söfnumhausti.

10

Jafnvægi

Gott jafnvægi skiptir máli í öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur, bæði í lífi og leik. Spreyttu þig á skemmtilegri jafnvægisæfingu, t.d. á vegasaltinu á næsta leikvelli, og fáðu fjölskyldumeðlim eða vin til að taka mynd af þér halda fullkomnu jafnvægi á slánni.

Deildu síðan undir myllumerkinu #söfnumhausti.

11

Skúlptúrar og form

Þríhyrningar, hringir, línur, ferhyrningar - og allt þar á milli! Hvert sem við lítum sjáum við þessi form í kringum okkur, hvort sem er í náttúrunni eða borgarlandslaginu. Leggðu af stað í leiðangur og finndu form sem þig langar að taka mynd af. Þú getur líka safnað margs konar formum og gert úr þeim skúlptúr! Hvernig lítur þinn formaskúlptúr út?

Taktu mynd og deildu undir myllumerkinu #söfnumhausti.