Um verkefnið

VATNSDROPINN er þriggja ára alþjóðlegt samstarfsverkefni Menningarhúsanna í Kópavogi, Múmínálfasafnsins í Tampere, H.C. Andersen safnsins í Óðinsvéum og Ilon Wonderland safnsins í Haapsalu í Eistlandi. Verkefnið á rætur sínar að rekja til vinabæjasamstarfs Kópavogs við Tampere og Óðinsvé.

Vatnsdropi er í eðli sínu heill heimur út af fyrir sig og í honum speglast allt umhverfið, eins og skáldið H.C. Andersen komst svo vel að orði. Þegar vatnsdropinn lendir á kyrrum vatnsfletinum eru áhrif hans mikil og þannig er verkefnið hugsað. Það byrjar smátt en mun sækja í sig veðrið og ljúka með umfangsmikilli farandsýningu og nýju fræðsluefni sem verður leiðbeinandi fyrir sambærileg verkefni í framtíðinni víða um heim.

Vatnið hefur verið mörgu skáldinu yrkisefni og vatnið og hafið leika stór hlutverk í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Eitt meginstef Vatnsdropans er að tengja saman boðskap og gildi Heimsmarkmiðanna við sígild skáldverk barnabókahöfunda á borð við Tove Jansson, Astrid Lindgren og H.C. Andersen. Höfunda, sem hafa þrátt fyrir ólíkar áherslur í verkum sínum, kennt okkur að bera virðingu fyrir náttúrunni, gefið okkur innsýn í heim þeirra sem minna mega sín og hvernig við getum komið þeim til hjálpar. Þannig eiga höfundaverk hinna norrænu rithöfunda jafn mikið erindi við lesendur í dag og þegar þau voru rituð.

Grein um Vatnsdropann í tímariti Menningarhúsanna í Kópavogi.

Copyright_OdenseBysMuseer (4).jpg

Mynd: Hans Christian Andersen Safnið í Óðinsvéum, Danmörku.