Ungir sýningarstjórar

Ertu í 4.-10. bekk í Kópavogi? Þekkir þú Línu langsokk, Múmínálfana og Litlu hafmeyjuna - eða langar þig kannski að kynnast þeim? Hefur þú áhuga á jafnrétti og umhverfisvernd? Finnst þér gaman að myndlist og langar að prófa að verða sýningarstjóri?

Menningarhúsin í Kópavogi leita að hugmyndaríkum og kraftmiklum krökkum til þess að vera fulltrúar grunnskóla Kópavogs í sýningarstjórateymi fyrir sýningu í Gerðarsafni. Sýningin er hluti af þriggja ára samnorrænu verkefni þar sem norrænar barnabókmenntir eru tengdar við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun þar sem fjallað er um gildi á borð við sjálfbærni og jafnrétti fyrir börnum og ungmennum.

Ungir sýningarstjórar munu starfa með sýningarstjórum Vatnsdropans við val á efni og viðburðum tengdum sýningu um Múmínálfana eftir finnska höfundinn Tove Jansson. Sýningin um Múmínálfana verður sett upp í Menningarhúsunum í Kópavogi vorið 2021. 

Allir grunnskólanemendur í Kópavogi í 4.-10. bekk eru velkomnir að sækja um.

Áhugasamir eru hvattir til að senda umsókn í formi kynningarbréfs (þar sem fram kemur nafn, aldur, skóli og áhugamál), tveggja mínútna myndbands og/eða einna til þriggja teikninga. 

Í umsókninni skal eftirfarandi koma fram:

  • Af hverju þú vilt taka þátt í verkefninu?
  • Hvernig væri hinn fullkomni heimur að þínu mati?
  • Gætir þú tengt sögupersónu úr uppáhaldsævintýrinu þínu (bíómynd eða bók) við þá hugmynd? Hvernig lítur hinn fullkomni heimur út í hennar augum?“
    Dæmi: litla stelpan með eldspýturnar í sögu H.C. Andersen er mjög fátæk og í fullkomnum heimi væri engin fátækt.

Hvað felur verkefnið í sér?

  • Ungir sýningarstjórar munu vinna með verkefnastjórum Menningarhúsanna, Múmínsafnsins og H.C. Andersen safnsins ásamt jafnöldrum sínum á Norðurlöndunum undir stjórn Chus Martinez, sýningarstjóra.
  • Ungir sýningarstjórar mæta á nokkra samráðsfundi í Menningarhúsunum í Kópavogi.
  • Ungir sýningarstjórar munu hafa bein áhrif á efnistök sýningarinnar og viðburði sem og fræðsluefni í tengslum við sýninguna.
  • Niðurstaða ungra sýningarstjóra verður kynnt í sambærilegu verkefni á Norðurlöndunum.
  • Ungir sýningarstjórar þurfa að hafa góð tök á ensku.

Frekari upplýsingar um verkefnið veitir Elísabet Indra Ragnarsdóttir, verkefna- og viðburðastjóri menningarmála í Kópavogi, í elisabet.indra@kopavogur.is

Poster A1 Water drop.jpg